Ástin í síðnútíma

Skilurðu ekki neitt? Við erum eina fólkið sem passar saman. Ætlarðu að láta okkur eldast og deyja hvort í sínu horni? Ætlarðu að taka þig frá mér? Ætlarðu að taka okkur frá okkur?

–  Alda í Tímaþjófnum eftir Steinunni Sigurðardóttur

Ást og ástarsambönd í íslenskum síðnútíma

Ást og ástarsambönd í íslenskum síðnútíma er rannsókn sem hefur hlotið styrk frá Rannsóknarsjóði Háskóla Íslands 2021. Fyrstu niðurstöður birtust í sérriti um ástarrannsóknir sem kom út á vegum Ritsins, tímariti hugvísindastofnunar. Berglind Rós Magnúsdóttir stýrir rannsókninni. Brynhildur Björnsdóttir og Ásgeir Brynjar Torfason voru jafnframt starfsmenn rannsóknar.  

Vísindapólitískt markmið​

Markmið rannsóknarinnar er vísindapólitískt að því leyti að það felst í að taka þátt í uppbyggingu á nýju þverfaglegu rannsóknarsviði ástarrannsókna á Íslandi sem nær til mennta-, hug-, heilbrigðis- og félagsvísinda.

Rannsóknir á rómantískri ást sem grunnþætti í umhyggjuhagkerfi samfélaga hefur gríðarlegt mikilvægi í uppeldis- og menntunarfræðum, s.s. til að skilja hvernig við getum búið ungt fólk betur undir einkalíf og fjölskyldulíf en nú er gert („Lög um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla „, 10/2008) og unnið að markmiðum er varða grunnþætti menntunar (sérstaklega jafnrétti og heilbrigði og velferð) (Mennta- og menningarmálaráðuneytið, 2011).

Hagnýtt markmið

Hagnýtt markmið snýr að því að því að skapa þekkingu til að skilja betur þær breytingar sem eiga sér  stað á djúptengslum, en þar hafa rómantísk tengsl haft mikið vægi. Bent hefur verið á að markaðsvæðing tilfinningalífsins og afbygging langtímasambanda hafi haft neikvæð áhrif á lífshamingju og einsemd sé nú heimsfaraldur (Illouz, 2019). Hvernig búum við ungt fólk sem best undir breyttar forsendur? 

Rannsóknir Önnu Guðrúnar

Þriðja markmið er að taka upp þráðinn og dusta rykið af rannsóknum Önnu Guðrúnar Jónasdóttur, sem þróaði þetta rannsóknarsvið fyrir 30 árum síðan (Jónasdóttir, 1994, 2011), og skoða meginhugtak hennar, ástarkraft (e. love power) í íslensku samhengi en óhætt er að segja að hennar kenningar hafi ekki náð sams konar brautargengi hér á landi og annars staðar. Skoðað er sérstaklega hvernig birtingarmyndir, magn og nýting ástarkraftsins markast af kyni, stéttarstöðu og tilfinningaauðmagni (Cottingham, 2016; Reay, 2004)

Á þeim 30 árum sem liðið hafa síðan Anna Guðrún Jónasdóttir skilgreindi ástarkraftinn hafa femínískar byltingar skapað framakonunni svigrúm til sams konar eignaréttar um hámörkun eigin hæfileika og að varast skuli að fórna sér fyrir aðra (arðrán á ástarkrafti). Því hefur arðrán á ástarkrafti átt sér margbreytilegri birtingarmyndir þar sem samspil stéttar, uppruna og kyns skiptir sköpum (Gregoratto, 2017). Hins vegar hefur kynlífsvæðing og áhersla á kynósandi kapital (e. sexual/erotic capital) átt þátt í að endurskapa undirskipun kvenna gagnvart körlum (Illouz, 2019) og áherslan á neyslumenningu til að skapa ‚réttar‘ forsendur fyrir ástinni ýtt undir aukna stéttaskiptingu í þessum efnum. 

Leysing í samfélagsgerðinni

Fjórða markmiðið er að skoða hvernig leysing í samfélagsformgerðinni hefur sett mark sitt á rómantíska ást sem grunnstef í persónulegum djúptengslum (Illouz, 2012, 2019) með sérstakri áherslu á hugtökin fráhverf tengsl (e. negative relations) og einskisval (non-choice). Val sem er lykilorð kapítalismans hefur nú þróast yfir í að velja aldrei fyllilega neitt, að skuldbinda sig aldrei í nein tengsl að fullu, hvort sem þau eru efnahagsleg, pólitísk eða rómantísk. Þetta má kalla einskisval. Frelsið til að fara inn í sambönd af öllu tagi hefur einnig skapað aukið frelsi til að yfirgefa þau – jafnvel með einum takka.   

Umsóknir í rannsóknarsjóði

Fimmta markmiðið er að fjármagnið sem úthlutað var til þessarar afmörkuðu rannsóknar nýtist til að vinna að umsókn í stærri rannsóknarsjóði (Rannís 2022) þar sem skapað verður samstarf þvert á svið Háskóla Íslands. 

Höf: Berglind Rós Magnúsdóttir prófessor

volcano, eruption, lava-4813837.jpg