Málstofur

Ég vil hvorki verða kauplaus ambátt eða keypt maddama.

– Ugla í Atómstöðinni eftir Halldór Laxness

Ástarrannsóknir í Hallgrímskirkju, 2022

Ástin er eitt mikilvægasta fyrirbæri mannlífsins. Kærleikur og ást er einnig kjarnastef í kristinni boðun.

Þjóðarspegillinn 2021: Ástarrannsóknir

„Ég hef alltaf minni og minni áhuga á þessu hefðbundna sambandi“: Tilhugalíf fráskilinna framakvenna

Hér er rýnt í ástarreynslu kvenna á miðjum aldri sem hafa skilið við langtímamaka og eru að reyna að fóta sig í breyttum og sítengdum veruleika tilhugalífsins. Tekin voru djúpviðtöl við konur sem standa nokkuð ofarlega í vinnuhagkerfinu og þau greind með aðstoð hugtaka úr smiðju Önnu Guðrúnar Jónasdóttur, Evu Illouz og Pierre Bourdieu. Ýmislegt hefur breyst á vettvangi ástarinnar frá því þær voru þar síðast. Þeim finnst erfiðara nú en áður að upplifa sérstöðu og öðlast fullvissu um eigin og annarra ástartilfinningar og varanleika þeirra; þrenna sem taldist eitt sinn grundvöllur ástarsambands. Þær lifa ýmist meira í takt við neyslumenningu kynlífs og ástar eða eru í pásu frá ástinni sem birtist í óvirkni eða tímaböndum (e. situationship) og hafa samsamað sig frádrægum tengslum (e. negative relations). Konurnar hafa tileinkað sér ýmis gildi markaðarins til að finna með skjótum hætti þann ástarverðuga. Þær hafa sjálfar fundið á eigin skinni hversu auðvelt er að aftengjast mögulegu ástarviðfangi í skjóli tæknivæddrar fjarlægðar. Konurnar eru sjálfum sér nógar félagslega og efnahagslega og velja að búa einar. Þær eru ekki að leita aftur að sambúð þótt þær séu að leita að ást. Vegna óvissunnar sem ríkir í rómantískum tengslum hafa þessar konur lagt enn meiri áherslu á vinatengsl og kvennasamstöðu sem jafnframt nýtist til að verja sig ástararðráni.

Tengill á fyrirlesturinn.

Höf: Berglind Rós Magnúsdóttir

Réttlát ást á tveimur öldum

Erindið snýst um réttláta ást sem er ástarhugmynd sem fræðimenn jafnt sem aðgerðasinnar hafa nýtt í baráttunni fyrir viðurkenningu á mannréttindum hinsegin fólks. Líkt og á við um kvennabaráttuna má tala um fyrstu og aðra bylgju baráttunnar fyrir réttlátri ást homma og lesbía. Fyrri bylgjan hófst á ofanverðri 19. öld og entist eitthvað inn á þá 20. Sú síðari byrjaði upp úr 1970 en óx svo ásmegin upp úr 1990 þegar tekið var að berjast fyrir samfélagslegri og kirkjulegri viðurkenningu á ást þeirra og löglegri sambúð. Tekin eru tvö dæmi frá tveimur öldum með það að markmiði að varpa ljósi í það sem er sameiginlegt og hvað ekki. Á ofanverðri 19. öld börðust hommar í Þýskalandi og Englandi fyrir viðurkenningu á homogenic ást sinni – án sýnilegs árangurs. Réttri öld síðar var umhverfið og menningin víða gjörbreytt og meiri vilji til að umbylta viðhorfum jafnt sem lögum um samkynhneigð og borgaraleg réttindi hinsegin fólks. Dæmi um það er Ísland þar sem mikill  kraftur færðist í þessa baráttu eftir 2000. Lykilatriði í því samhengi var nýr skilningur á ástinni þar sem réttlæti, frelsi og sjálfræði voru sett á oddinn. Erindið byggist á textarannsókn. Byggt er á frumheimildum jafnt sem síðari tíma heimildum.

Tengill á fyrirlesturinn.

Höf: Sólveig Anna Bóasdóttir

Á valdi ástarinnar- um markaðslegan tilgang og félagslegt taumhald hugmyndarinnar um rómantíska ást

Hugmyndin um vald rómantískrar ástar er rótgróin í menningu vestrænna samfélaga. Rómantísk ást er notuð grimmt til að markaðssetja og selja, ekki bara varning og vörumerki heldur líka hugmyndafræði sem viðheldur valdakerfum. Í sumu tilliti hefur hún tekið við af trúarbrögðum sem hið óáþreifanlega en þó magnaða afl sem allt knýr áfram. Rómantísk ást er einnig gríðarlega mikilvægur drifkraftur kynjakerfisins þar sem ástarkraftur gengur kaupum og sölum á markaðstorgi þar sem hallar mjög áberandi á annað kynið. Hér er spurt hvort hugmyndin um rómantíska ást tengist auknu pólitísku og félagslegu valdi kvenna á 20. öld og þeirri ógn sem valdahlutföll kynjanna standa frammi fyrir í kjölfarið. Bleikrauðu kastljósi er beint að ýmsu dægurefni sem setur ástina og hlutverk kynjanna í forgrunn. Efnið er greint með aðferðum orðræðugreiningar og stuðst við kenningar Evu Illouz um hagræn áhrif markaðssetningar á rómantískri ást í ljósi kenninga Horkheimer og Adorno um menningariðnaðinn og að lokum könnuð tengsl slíkrar markaðssetningar við kenningar Önnu Guðrúnar Jónasdóttur um ástarkraftinn.

Tengill á fyrirlesturinn.

Höf: Brynhildur Björnsdóttir og Silja Bára Ómarsdóttir

Hvað þurfum við til að elska? Viðhorf Íslendinga til þess hvað er mikilvægt í góðu hjónabandi í alþjóðlegum samanburði

Mannfólkið hefur lengi myndað ástarsambönd en tilgangur þeirra hefur verið breytilegur yfir tíma og á milli samfélaga. Oft var frekar um að ræða samband af hagkvæmnisástæðum, en hugmyndin um rómantíska ást kemur fram á miðöldum og hefur orðið meira ráðandi í vestrænum samfélögum. Samt er það þannig að þó margir sækist eftir rómantískri ást eru ýmsar ástæður fyrir að fólk gengur í hjónaband og það er misjafnt hvað er talið mikilvægt fyrir gott hjónaband. Í þessari grein spyrjum við þriggja spurninga: 1) Hvað telja Íslendingar að sé mikilvægt í hjónabandi; 2) Er munur eftir félagslegum þáttum; og 3) Hvernig eru áherslur Íslendinga í samanburði við önnur lönd. Við svörum þessum spurningum með því að nota gögn úr Evrópsku Lífsgildakönnuninni frá 2017 en hún var lögð fyrir í 33 Evrópulöndum. Fyrstu niðurstöður sýna að Íslendingar leggja áherslu á mikilvægi þess að vera trúr, að deila heimilsstörfum og að hafa tíma fyrir eigin vini og eigin áhugamál, en tiltölulega litla áherslu á að hafa nægar tekjur, gott húsnæði og að eiga börn. Þannig sér stór hluti Íslendinga gott hjónaband það sem einkennist af trausti og sameiginlegri ábyrgð þar sem báðir aðilar geta blómstrað sem einstaklingar. Samkvæmt Lífsgildakönnuninni virðast Íslendingar vera komnir lengra frá eldri hugmyndum um hjónabönd sem hagkvæmisstofnun heldur en almenningur í flestum öðrum Evrópulöndum.

Tengill á fyrirlesturinn.

Höf: Sigrún Ólafsdóttir og Berglind Rós Magnúsdóttir

Ég sé þig: Gróteskur kvenleiki Kristínar Gunnlaugsdóttur í samhengi sjónrænnar auðvaldshyggju

Árið 2015 málaði listakonan Kristín Gunnlaugsdóttir verkið Ég sé þig. Verkið birtir okkur ógnandi dökka kvenveru, málað í  gróteskum karnivalstíl. Það má túlka áherslur verksins sem umsnúning á rómantískum hugmyndum um ljúfa ímynd ástarinnar, nokkuð sem er lýsandi fyrir verk Kristínar undanfarin ár. Það er í þessu samhengi sem áhrifin þurfa pólítískrar greiningar við. Hvernig getur krítískt verk sem þetta verið átakspunktur sem birtir okkur falið valdasamspil og kúgun í samfélagi samtímans? Í skoðun á þessu leita ég annars vegar til skoðunar bandaríska menningarfræðingsins Maryar Russo sem hefur rannsakað ímyndir gróteskra líkama kvenna í menningarlegu samhengi, hins vegar til kenninga ísraelska félagsfræðingsins Evu Illouz um tengsl ‘andhverfra tengsla’ (negative relations) og ‘sjónrænnar auðvaldshyggju’ (scopic capitalism) í valdbeitingu á grundvelli kynlífshegðunar og efnahags. Það er í þessu samhengi kynmyndar og valda sem síðari verk Kristínar Gunnlaugsdóttir tengjast; myndrænt uppbrot hennar á síðari árum er þannig einkennandi fyrir ástand heimsins, túlka má áhrifin sem listræna birtingarmynd og viðbrögð við ríkjandi ástandi andhverfra tengsla.

Tengill á fyrirlesturinn.

Höf: Hlynur Helgason

Þjóðarspegillinn 2018: Allt fyrir ástina

Járnbrautarslys í skini gaslampans

Oftast er talað um gasljóstrun (e. gaslighting) sem afbrigði af andlegu ofbeldi eða þvingun í persónulegum samskiptum. Í stuttu máli er átt við það þegar einn aðili fær annan til að efast um eigin skynjanir, minningar, upplifanir, dómgreind og geðheilsu með því að villa um fyrir honum með ýmsum hætti, svo sem með lygum, afneitun, misvísandi skilaboðum og mótsögnum.

Sú sem verður fyrir gasljóstrun fer að trúa því að hún sé galin því ekki sé hægt að reiða sig á ályktanir hennar, upplifanir og skynjanir og að vissara sé að treysta á dómgreind annarra, svo sem þess sem stendur fyrir gasljóstruninni.

Í þessum fyrirlestri er greiningaraðferðum femínískrar heimspeki beitt til að skoða hvernig jaðarsettir hópar í samfélaginu, í þessu tilviki konur sérstaklega, verða fyrir gasljóstrun með kerfisbundnum hætti af hálfu þeirra sem hafa meira vald, og hvernig gasljóstrun er beitt sem hluta af valdakerfinu sem heldur þeim niðri.

Notast er við menningarsöguleg dæmi frá fyrri tímum ásamt dæmum úr samtímanum um hvernig konur sem hafna þeirri þvingunaraðferð sem kölluð hefur verið velviljaðir kynjafordómar (e. benevolent sexism) eru útmálaðar sem karlahatarar, bilaðar og verða ef þær fylgja ekki hegðunarreglum svokölluð járnbrautarslys (e. trainwrecks) og öðrum víti til varnaðar.

Höf: Eyja Margrét Brynjarsdóttir

Með Bakkusi út að skemmta sér:

Kynjuð hlutverk áfengis í sögum ungs fólks (18-20 ára) af skemmtanamenningu á Íslandi

Í þessari rannsókn var skoðað hvaða hlutverki áfengi gegnir í skemmtanamenningu ungs fólks (18-20 ára). Fræðilega sjónarhornið er femínískur póststrúktúralismi auk þess sem stuðst er við kenningar um hrif. Beitt var svokallaðri sögulokaaðferð (e. story completion method) sem felst í því að þátttakendur fá upphaf sögu (1-3 línur) og eru beðnir um að ljúka henni.

Þátttakendur (hentugleikaúrtak) fengu ýmist upphaf sögu þar sem söguhetjurnar voru ungar konur, karlar eða blandaður hópur á sama aldri og þau sjálf (samanburðarsnið). Sögurnar (n=50) voru þemagreindar með aðferð Braun og Clarke. Í þessum fyrirlestri verður einkum fjallað um þemað: „áfengi sem sleipiefni í samskiptum kynjanna.“ Í þessu þema gegndi áfengi því hlutverki að liðka fyrir kynferðislegum samskiptum kynjanna.

Drykkjan hafði mismunandi afleiðingar eftir því hvort söguhetjan var ung kona eða karl. Þær tilfinningar sem fylgdu áfengisdrykkjunni s.s. kvíði og eftirvænting tóku líka á sig kynjaðar myndir og tengdust á ólíkan hátt líkömum söguhetjanna. Í fyrirlestrinum verður því velt upp hvaða innsýn sögurnar gefa í heim ungmenna sem eru að spreyta sig áfram sem kynverur oft með „hjálp“ áfengis. Einnig verður fjallað um hvað þessar sögur segja um þær áhættur og áskoranir sem fylgja áfengisdrykkju ungs fólks.

Höf: Annadís G. Rúdólfsdóttir

Saga þernunnar:

Birtingarmyndir feðraveldisins í #metoo frásögnum

Alþjóðlega #metoo hreyfingin sem á rætur að rekja til Bandaríkjanna náði mikilli útbreiðslu á Íslandi á haustmánuðum 2017. Í fréttamiðlum birtust nafnlausar frásagnir af ýmsum tegundum kynbundins ofbeldis, s.s. kynbundinni áreitni, kynferðislegri áreitni, kynferðislegu ofbeldi og nauðgunum. Meðal frásagnanna voru frásagnir kvenna sem starfa á 13 ólíkum sviðum samfélagsins, rúmlega 600 sögur.

Með frásögnunum birtust einnig um 5000 áskoranir kvenna innan þessara sömu sviða þar sem þær krefjast þess að unnið verði gegn kvenfjandsamlegri (vinnu-)menningu svo þær geti sinnt störfum sínum án þess að verða fyrir ofbeldi. Í erindinu verða þessar frásagnir greindar með tækjum femínísks póststrúktúralisma og fjallað um ólíkar birtingarmyndir feðraveldisins á þessum 13 sviðum samfélagsins. Einnig er varpað ljósi á með hvaða hætti feðraveldið viðheldur sér og hvað gerir körlum kleift að misnota vald sitt með þessum hætti.

Helstu niðurstöður eru þær að í frásögnunum birtist hugmyndin um konur sem þernur feðraveldisins og um leið er komið fram við þær sem annaðhvort boðflennur (t.d. á vettvangi stjórnmálanna og í prestastétt) eða þjónar sem er ætlað að mæta líkamlegum og kynferðislegum þörfum karla (t.d. í heilbrigðisstétt og í sviðslista- og kvikmyndagerð). Í frásögnunum er einnig lýst viðbragðsleysi samfélagsins og hvernig gerendur eru afsakaðir og þannig gefið færi á að halda uppteknum hætti.

Höf: Gyða Margrét Pétursdóttir
Annadís Gréta Rúdólfsdóttir

Þjóðarspegillinn 2016: Hið íslenzka ástarrannsóknarfélag

Ástin á tímum neyslunnar

Í erindinu er tæpt á nýjum rannsóknum á ástinni sem femínísku og fræðilegu fyrirbæri. Markmiðið er að varpa ljósi á það hvernig ástin er gerð að neysluvöru í dægurmenningu. Dæmi um það eru sótt í auglýsingar, bókmenntir, kvikmyndir og tónlist, sem rýnt er í með kenningum Evu Illouz, Horkheimer og Adorno.

Í þessu samhengi sjáum við að loforð ástarinnar er að uppfylla allar okkar þarfir. Hin kyrrláta ást, sem fullnægir þörfu er því í mótstöðu við neysluhagkerfið sem bregst við með því að innlima ástina í neysluna með því að búa til hugmynd um ást, hugmynd sem er full af mótsögnum. Hugmyndin um ástina er notuð til að selja okkur allt frá gosdrykkjum til garðhúsgagna, bikiní til bifreiða, með loforðinu um að við séum einstök, en þó hluti af heild, og þess virði að elska og vera elskuð.

Ástin verður minna virði ef ekki fylgir neysla, og ástin verður varningur – eitthvað sem þú getur öðlast gegn réttu gjaldi. Samt er hún um leið óáþreifanleg og hið „rétta gjald“ óskilgreint. Það eina sem skiptir máli er að þú átt skilið, og nánast heimtingu á að öðlast ástina – ef þú bara leggur þig fram á réttan hátt. Vísbendingar eru um að hugmyndin um ástina sé viðhaldið í gegnum neyslu dægurmenningar sem skapar ólíkar þarfir og væntingar kynjanna til hennar.

Höf: Brynhildur Björnsdóttir
Silja Bára Ómarsdóttir

Tilfinningaauður sem greiningartæki og viðbót við auðmagnskenningu Bourdieu

Feminískir fræðimenn hafa á undanförnum árum nýtt sér hugtök Bourdieu, en þróað hugtökin áfram og endurbætt þannig að þau nái til siðferðis- og tilfinningalegra vídda. Það hafa þau m.a. gert með því að bæta tilfinningalegu auðmagni (emotional capital) við auðmagnskenninguna.

Mikilvægi þess að skoða tilfinningar sem auðmagn er ótvírætt. Með aukinni markaðsvæðingu og menningarlegri leysingu þarf að geta tekist á við sívaxandi óöryggi og sveigjanleika. Rétt eins og annars konar auður eru tilfinningaleg bjargráð kynjuð og stétttengd. Sá sem hefur ríkulegan tilfinningaauð er líklegri til að hafa stjórn á tilfinningum sínum og hefur innbyrt tilfinninganorm samfélagsins. Tilfinningaauður hefur skiptigildi rétt eins og annar auður, en hefur sérstöðu að því leyti að konur eru að jafnaði taldar vera ríkari af slíkum auði.

Tilfinningaauður þróast með einstaklingi frá blautu barnsbeini og er ávöxtur markviss uppeldis, sjálfsrýni og ögunar. Í fyrirlestrinum verður rýnt í þetta nýlega hugtak, gefin dæmi um hvernig það hefur verið nýtt sem greiningartæki í menningar- og menntarannsóknum, og varpað ljósi á hversu mikilvægur tilfinningaauður er í samspili við annars konar auð til að skilja betur misrétti, aðgerðir, skuldbindingar og árangur.

Höf: Berglind Rós Magnúsdóttir

Ást og umönnun í kvikmyndum

Samhengi menningar og fötlunar er áhugavert viðfangsefni og með því að skoða mismunandi menningarafurðir er hægt að fá vísbendingar um gildi og viðmið samfélaga. Leiknar kvikmyndir eru dæmi um slíka menningarafurð, geta gefið vísbendingar um tíðarandann og haft áhrif á viðhorf almennings.

Í erindinu verður rýnt í kvikmyndir sem eiga það sameiginlegt að fjalla um samskipti ófatlaðra kvenna og fatlaðra karla og hafa slegið mörg aðsóknarmet og tilnefndar til fjölda verðlauna. Sjónum verður beint að samspili ástar og umönnunar, og því hvernig ófötluðu söguhetjurnar annast karlana og elska. Rýnt verður í það hvernig ást og umönnun kvennanna gerir körlunum kleift að taka virkan þátt í samfélaginu, hvernig umönnunin er normaliseruð sem eðlislægt kvenhlutverk, og þeir barngerðir í samskiptum sínum við konurnar.

Þrátt fyrir að konurnar gefi þeim alla sína ást, dugar hún skammt og sumir þeirra missa tökin, sturlast jafnvel eða deyja. Sú hugmynd að það sé betra að deyja en að vera fatlaður er lífseig staðalímynd sem byggir á þeirri hæfishyggju að það sé alltaf betra að vera ófatlaður en fatlaður. Fjallað verður um viðtökur myndanna í samhengi við ástina.

Höf: Kristín Björnsdóttir

Sú yðar sem syndlaus er

Í rannsókninni er skoðað hvernig orðræða um kynferðisofbeldi, þolendur þess og gerendur birtist í umfjöllun fjölmiðla um afturköllun ráðningar Jóns Baldvins Hannibalssonar við Háskóla Íslands. Beitt var orðræðugreiningu í anda Foucault og niðurstöður sýna þráfellda áherslu á fyrirgefningu. Var þar haldið uppi afsökunarbeiðni geranda sem, þrátt fyrir skiptar skoðanir um einlægni hennar og að iðrun hans hafi verið dregin í efa, er álitin kalla á fyrirgefningu.

Er sú umræða stutt vísunum í kristin gildi og boðskap fyrirgefningarinnar. Þess háttar krafa um fyrirgefningu virðist oft ætlað að kveða málið niður og koma í veg fyrir frekari eftirköst. Fyrirgefningin virðist þannig jafngilda syndaaflausn án þess að gerandi þurfi að taka ábyrgð á gjörðum sínum. Krafan um slíkt setur þolendur þannig í mjög vafasama stöðu og virkar frekar til þess að óvirða þolendur og valda þeim jafnvel frekari skaða þegar þolandi er enn einu sinni beðinn um að setja vilja gerandans ofar sínum eigin.

Í umræðum um málið verður þar svo ákveðinn viðsnúningur á hlutverkaskipan, þegar afsökunarbeiðni gerandans krefst fyrirgefningar verður það þolandans að fyrirgefa. Gerandinn verður við það nánast óvirkur meðan ábyrgðin verður þolandans, sem með undirliggjandi kröfu um fyrirgefningu verður gerandinn í málinu.

Höf: Ívar Karl Bjarnason
Gyða Margrét Pétursdóttir

#Freethenipple: Gleði, samstaða og systralag

Í þessum fyrirlestri munum við fara yfir hvað átti sér stað í #freethenipple byltingunni vorið 2015 ásamt eftirleik hennar. Fjölmiðlar höfðu mikinn áhuga á að fjalla um þennan viðburð og til grundvallar að greiningunni orðræðugreindum við 60 fréttir, greinar og blogg frá tímabilinu 25. mars 2015 – 26. mars 2016.

Við færum rök fyrir því að ungu konurnar notist bæði við nýfrjálshyggju orðræðu þar sem sjálfsmyndin er sköpuð í gegnum val okkar, sem og róttæka femíníska orðræðu þar sem konurnar upplifa samstöðu í baráttu sinni gegn kúgun feðraveldis. Viðbrögð við byltingunni eru líka greind, en þau spanna allt frá miklum stuðningi, til mikillar gagnrýni á siðferði ungra stúlkna sem fólst í ásökunum um athyglissýki, að konurnar væru að gangast undir kröfur klámvædds samfélags, og áhyggjur yfir því hvort þær sæju eftir þessu síðar meir.

Við ræðum það hvernig ungu konurnar finna leið í þessu ástandi til að búa til femínisma, eða eins og þær orða það „byltingu“, sem þær eru sáttar við og talar til þeirra. Það sem virðist halda þessari byltingu á lofti er gleðin, samstaðan og systralagið sem þær finna fyrir hver með annarri, og er mjög augljóst þegar #freethenipple viðburðirnir eru skoðaðir.

Höf: Annadís Gréta Rúdólfsdóttir
Ásta Jóhannsdóttir