Meginhugtök

En þyldi hann samband við sterkar konur? Vildi hann ekki alveg eins vera með konum sem voru hressar en ekkert of magnaðar, eins og Karen Nínu? Hann myndi láta hrifningu sterkrar konu kitla hégóma sinn og espa sig upp. En á endanum myndi hann leita eftir sambandi við veiklynda konu, konu sem gerði hann sjálfan sterkan í samanburði.

– Hugsanir Fjölnis sálfræðings í Ástarmeistaranum eftir Oddnýju Eir Ævarsdóttur

Ástarkraftur

Ástarkraftur er sá sköpunarkraftur sem lífgar og endurlífgar þrótt, öryggi og vellíðan og raungerist í ástarveitandi stuðningi og umhyggju bæði í einkalífi og á vinnumarkaði.

Dr. Anna Guðrún Jónasdóttir, stjórnmálafræðingur setti fram kenninguna um „ástarkraftinn“ fyrir um 30 árum. Í doktorsritgerð sinni velti hún þeirri knýjandi spurningu fyrir sér af hverju konur væru undirskipaðar körlum þrátt fyrir jafnt aðgengi og jafnan rétt að valdavettvöngum samfélagsins.

Með kerfisbundinni greiningu á gagnkynhneigðum ástarsamböndum þróaði hún kenninguna um ástarkraftinn. Mest af ósýnilegri tilfinningavinnu er unnin í ástarsamböndum og fjölskyldum og er þunginn gjarnan á konum.

Tímaband

Tímaband (situation-ship) er hugtak sem á við um þá tegund af samböndum, samkvæmt menningarfræðingnum Evu Illouz, þegar báðir aðilar vita innst inni, yfirleitt án þess að beinlínis sé um það rætt, að þetta er samband byggt á afmörkuðum tíma vegna tiltekins verkefnis eða staðsetningar.

Að drauga einhvern

Eva Illouz fjallar einnig um það sem hún kallar ghosting, að hverfa eins og draugur út úr samböndum, hætta fyrirvaralaust að svara skilaboðum, loka á viðkomandi á öllum samskiptamiðlum og án þess að gefa skýringar. Íslensk þýðing gæti verið að drauga einhvern.

Einskisval

VAL sem er lykilorð kapítalismans hefur nú þróast yfir í að velja aldrei fyllilega neitt, til að hafa vaðið fyrir neðan sig. Að skuldbinda sig aldrei í nein tengsl að fullu, hvort sem þau eru efnahagsleg, pólitísk eða rómantísk. Þetta má kalla einskisval (non-choice).

Frádræg tengsl

Frádræg eða neikvætt hlaðin tengsl eru samkvæmt Evu Illouz þær aðstæður sem skapast við þá leysingu á samskiptareglum, þau síendurteknu brot á trausti, sem eiga sér stað þegar fólk er orðið vant því að eiga í samböndum sem er jafnvel ekki ætlað að endast til lengri tíma litið eða upplifa það að vera draugað (e. ghosted), sem veldur því að fólk á alltaf von á einhvers konar höggi og gerir óbeint ráð fyrir því. Óttinn við þetta ástand birtist meðal annars í því að fólk gerir sér áætlanir í samskiptum sem byggjast meira á sjálfsvörn og sjálfsvernd en áður.