Facebook
Twitter
LinkedIn

Aðrir pistlar

Dr. Anna Guðrún Jónasdóttir, stjórnmálafræðingur setti fram kenninguna um „ástarkraftinn“ fyrir um 30 árum. Í doktorsritgerð sinni velti hún þeirri knýjandi spurningu fyrir sér af hverju konur væru undirskipaðar körlum þrátt fyrir jafnt aðgengi og jafnan rétt að valdavettvöngum samfélagsins. Með kerfisbundinni greiningu á gagnkynhneigðum ástarsamböndum þróaði hún kenninguna um ástarkraftinn. Mest af ósýnilegri tilfinningavinnu er unnin í ástarsamböndum og fjölskyldum og er þunginn gjarnan á konum.

Aðdragandi kenningar:

Doktorsritgerð Önnu Guðrúnar kom út árið 1991 en ritgerðina varði hún við stjórnmálafræðideild Örebro háskóla. Fræðimenn hafa lengi verið að fást við umhyggju og náin samskipti kynjanna en ást sem fyrirbæri átti ekki upp á pallborðið. Þegar Anna Guðrún Jónasdótttir gaf út doktorsritgerðina sína hjá bandarísku útgáfufyrirtæki þá leyfðist henni ekki að nota orðið ást í titli bókarinnar. Það þótti bara ekki nógu fræðilegt. Doktorsritgerðin sem skrifuð var á sænsku við Uppsala háskóla bar heitið „Ástarkraftur og pólitískir hagsmunir“ en í meðförum Ameríkana varð titillinn að spurningunni: Af hverju eru konur undirokaðar? Sá titill passaði betur inn í fræðilega orðræðu þess tíma og var í sjálfu sér ekki rangur eða afvegaleiðandi því Anna Guðrún þróaði hugtakið ástarkraft til að útskýra af hverju konur væru ennþá undirokaðar í samfélaginu þrátt fyrir allar femínísku byltingarnar.

 Ríkjandi þekkingarfræði gerði skýr skil milli skynsemi og tilfinninga þar sem hið tilfinningalega var talið standa utan við eitthvað sem gæti talist haldbært rannsóknarefni, hvað þá grundvöllur kenningar. Af öllum tilfinningum var ást það síðasta sem gat talist rannsóknarhæft, því eins og orðtakið segir þá eru vegir ástarinnar órannsakanlegir. Ástin er órannsakanleg því hún stjórnast ekki af skynsemi heldur sterkum ósjálfráða tilfinningum og þannig látið að því liggja að ástartilfinningar séu ekki kerfisbundnar, lúti ekki félagslegum lögmálum því raunveruleg ást sé óháð valdatengsum, og við neyðumst til að elta hana. Ef við hins vegar gerum það ekki erum við að svíkja það æðsta sem hinn grái veruleiki getur boðið okkur upp á.

Alda í Tímaþjófnum eftir Steinunni Sigurðardóttir segir einmitt við Anton elskhuga sinn:  Látum ekki spyrjast á okkur að við séum venjulegt fólk sem lætur ástina reka á reiðanum.

Sá sem svíkur ástina svíkur sjálfan sig. Ástin hefur tekið við af trúarbrögðum (sá sem fylgir ekki Guði mun tortímast). Alda í Tímaþjófnum segir jafnframt:

„Sumir eru marxistar og sumir trúa á guð en ég virðist hafa trúað óvart á ástina og sjáðu hvernig hún lék mig?“  Alda í Tímaþjófnum ferst úr ástarsorg. Hún skilgreindi tilgang sinn, sjálfsmynd sína og þátttöku í karllægu samfélagi út frá sambandi sínu við karlmenn.

Ástin var því talin standa utan við lögmál fræðaheimsins. Kynjafræðingar og fræðimenn sem aðhylltust femínískar kenningar voru samt sem áður búnir að átta sig á mikilvægi þess að hið persónulega var líklega það pólitískasta og það þyrfti einmitt að rýna í innstu afkima einkalífsins til að skilja ójöfnuð til hlítar. Félagsvísindin þyrftu því að taka þetta upp á sína arma en það gerðist ekki almennilega fyrr en Anna Guðrún Jónasdóttir, skagfirsk-ættaður Akureyringur fetaði sig inn í þetta forboðna land akademíunnar og þróaði hugtakið ástarkraft með hugtök Marx um vinnukraft (labour power),  arðrán og félagslega endursköpun (social reproduction) að vopni. Hún semsagt lét gamla Marx þjóna sér í leit sinni að svörum við kynjaójöfnuði.

En hvað er ástarkraftur?

Ástarkraftur er sá sköpunarkraftur sem lífgar og endurlífgar þrótt, öryggi og vellíðan og raungerist í ástarveitandi stuðningi og umhyggju bæði í einkalífi og á vinnumarkaði. Konur eru oftar að mati Önnu Guðrúnar megin ástarveitur í ástarsamböndum án þess að njóta ávaxtanna að eðlilegu marki. Mest af ósýnilegri tilfinningavinnu er unnin í ástarsamböndum og fjölskyldum og er þunginn gjarnan á konum. Makar sem hafa notið góðs af slíkum ástarkrafti átta sig margir ekki á þessari tilfinningavinnu sem þeir hafa notið góðs af fyrr en þeir skilja, konan veikist eða fellur frá.

Skilgreining á arðráni

En hvað merkir að arðræna? Í einfaldri merkingu þýðir það að nýta sér eitthvað og með því að bæta hinni neikvæðu merkingu við merkir það að nýta sér einhvern eða eitthvað í eigin hagsmunaskyni. Anna Guðrún er ekki beinlínis að nota þetta hugtak í því samhengi. Það þarf ekki að fela í sér lélegt siðferði eða skipulagt óréttlæti. Nýting mennskra orkuauðlinda getur haft ólíkt og ójafnt virði. Varðandi vinnukraft getur það t.d. verið fólgið í því að að konan sjái um þvott og uppvask en karlinn um bílinn og að slá garðinn. Hversu oft þarf að vaska upp og hversu oft þarf að slá garðinn? Þetta getur verið samkomulag sem báðir aðilar gangast inn á og finnst sanngjarnt en vinnuframlagið er engu að síður ójafnt. Anna Guðrún heldur því einfaldlega fram að mannleg geta til að elska og vinna séu mannlegar orkulindir sem sé mögulegt að arðræna, jafnvel og kannski yfirleitt með glöðu geði beggja aðila.

Þess vegna leggur Anna Guðrún áherslu á að skoða ekki eingöngu kynferðislega ást þar sem ofbeldi eða ósætti er fylgifiskur í sambandinu heldur ekki síst það sem er viðtekið sem eðlilegt og báðir aðilar gangast inn á á hverjum tíma. Ástarkrafturinn er jafnan mjög jákvætt afl í lífi fólks. Ástarsamband getur engu að síður falið í sér arðrán þótt báðum aðilum finnist ástin blómstra. „Ég er bara rosalega ástfangin en mér líður samt ekkert rosaleg vel inn í þessu sambandi. Ég veit ekki fyrr en ég er búin að fórna einhverju mikilvægu í mínu lífi fyrir hann en það er ástin, þú veist, því ég elska hann svo mikið. Hvað er mikilvægara en að eyða tíma með ástinni sinni? Það virðist hins vegar alls ekki jafn tilviljanakennt og margir gætu haldið hver lagar sig að og hliðrar til sínu, það er bundið valdatengslum sem markast af efnhag, stéttarstöðu og kyni. Mjög gjarnan er það vinna karlsins og þarfir hans sem skilgreina sambandið, búsetu og tengsl. Það eru mun oftar konur sem laga framaferilinn að barneignum og maka, megin ástartengslum sínum. Þetta er ástand sem Anna Guðrún fann einmitt í sínum gögnum. Að skilgreina þetta sem arðrán á ástarkrafti fangaði einmitt það sem var ósagt. Þetta þýðir þó alls ekki að konur hagnist ekki, eða geti ekki hagnast á ástartengslum. Eða allir karlmenn hagnist á ástinni. Alls ekki. Með þessu fyrirkomulagi, þ.e. að eyða meiri tíma í einkarýminu og með sínum nánustu, ná fleiri konur en karlar að rækta tilfinningaauðmagn sitt og standa oft betur tilfinningalega í gegnum lífið þrátt fyrir mögulegt eða meint ástararðrán.

Þú getur bæði verið arðræninginn og sá sem er arðrændur í senn. Og það er einmitt það sem gerir þetta svo flókið. Þú hangir á þessum dásemdar augnablikum þar sem arðræninginn gefur svo og svo mikið af sér, veitir þér akkúrat það sem þú varst allan tímann að bíða eftir. Stundum er það fjárhagslegt öryggi, athygli og ástúð þegar enginn annar er til staðar, kynlíf, rómantík, viðurkenning á yfirburðum og sérstöðu eða ástarorðræða sem þú færð sjaldan að spegla þig í nema með honum. En það er ekki þar með sagt að jöfnuður ríki og í hversdeginum fáir þú að njóta ástarkrafta viðkomandi til jafns. Skorturinn inn á milli ýkir jafnvel upp gleðina og ástartilfinninguna. Að fá eitthvað stöðugt svona eins og daglega umhyggju getur orðið svo viðtekið að viðkomandi áttar sig ekki á allri umhyggjuvinnunni sem hann/hún fékk fyrr en sambandi lýkur. Þetta er vel þekkt í rannsóknum á ekklum.

Hið hefðbundna kapítalíska samfélag hefur lengst af gert ráð fyrir því að konur gefi af sér og sinni umhyggju gagnvart öðrum án þess endilega að gera ráð fyrir að fá eitthvað í staðinn. Þannig hefur það alltaf verið. Það getur einfaldlega verið erfitt að breyta sögunni þegar maður stendur sjálfur í henni miðri.

Nútíminn – 30 árum síðar!

Á þeim 30 árum síðan Anna Guðrún setti fram þessa kenningu hefur þetta auðvitað breyst. Karlar taka nú í meira mæli þátt í uppeldi og að veita umhyggju inni á heimilinu en gefa þeir alla jafna meira af ástarkrafti sínum til maka en áður? Þessu hefur ekki almennilega verið svarað. Því er gríðarlega mikilvægt að halda áfram með rannsóknir á ástarvinnunni í samfélaginu, hvar hún liggur, hjá hverjum og í hverju hún er fólgin? Í stóra samhenginu þarf svo að spyrja sig hvaða þættir þurfa að vera til staðar til að reka öflugt og réttlátt umhyggjuhagkerfi og hvaða öfl það eru helst sem afvegaleiða réttlætið og ástina í samfélögum.

Pistillinn birtist upphaflega á ruv.is

Undir yfirborðið – Ástarrannsóknir

Þátturinn Undir yfirborðið í umsjón Ásdísar Olsen var tileinkaður ástarrrannsóknum þann 5. desember 2022. Rætt var við Berglindi Rós Magnúsdóttur.

Rýnt í ástina í Hall­gríms­kirkju

Ný há­degis­við­burða­röð Hins ís­lenska ástar­rann­sóknar­fé­lags hefst í Hall­gríms­kirkju í dag þar sem ástin verður skoðuð frá ýmsum sjónar­hornum. Ástin verður í brennidepli

Ef þú giftist

Umsjónamaður: Brynhildur Björnsdóttir. Lögformlegur samningur um ást og uppvask Hjónabandið er allt í senn, samfélagslegur hornsteinn, stofnun ástarinnar og lögformlegur samningur um

Leave a Comment

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *