Facebook
Twitter
LinkedIn

Aðrir pistlar

Ný há­degis­við­burða­röð Hins ís­lenska ástar­rann­sóknar­fé­lags hefst í Hall­gríms­kirkju í dag þar sem ástin verður skoðuð frá ýmsum sjónar­hornum.

Ástin verður í brennidepli í Hallgrímskirkju í hádeginu í dag en þá hefst viðburðaröð þar sem félagsmenn í Hinu íslenska ástarrannsóknarfélagi kynna rannsóknir sínar og skrif um málefni ástarinnar.

„Þetta eru allt fræðimenn með ólíkan bakgrunn sem hafa tileinkað hluta af rannsókna- og fræðatíma sínum í þetta viðfangsefni,“ segir doktor Berglind Rós Magnúsdóttir, formaður Hins íslenska ástarrannsóknarfélags, sem verður framsögumaður í samverunni í dag.

Í erindi sínu mun Berglind Rós fjalla um ástarrannsóknir og tilhugalíf fráskilinna framakvenna.

„Þetta byggir á djúpviðtölum við sjálfstæðar íslenskar konur sem eru að feta nýjar brautir í tilhugalífinu eftir skilnað og hafa ekki verið á vettvangi ástarinnar í talsverðan tíma,“ segir Berglind Rós og útskýrir að leikreglur hafi þróast og breyst talsvert á undanförnum árum. „Þetta tengist sítengingunni og ákveðinni regluslökun í allri tengslamyndum. Hvað er samband, hvenær er maður kominn í samband og hvað má gera í samböndum? Þessar reglur, sem voru nokkuð ljósar fyrir tuttugu árum síðan eru komnar á talsverða hreyfingu í dag.“

Hagfræði ástarinnar

Viðfangsefni dagsins segir Berglind Rós tengjast því sem hún kallar hagfræði ástarinnar.

„Þeir miklu straumar sem hafa gengið yfir samfélag okkar hafa ekki einungis haft áhrif á opinber kerfi heldur líka á einkalífið,“ segir hún. „Þar nýti ég mér kenningar Önnu Guðrúnar Jónasdóttur um ástarkraftinn þar sem hún útvíkkar hugmyndir Marx um vinnukraftinn og útfærir á ástina. Það er hægt að arðræna ástarkraftinn rétt eins og það er hægt að arðræna vinnukraftinn.“

Þá styðst Berglind Rós einnig við Evu Illouz sem hefur verið að skoða hvernig nálgun okkar að tilfinningum almennt hefur smitast af markaðslögmálum.

„Ég verð aðeins á þessum slóðum,“ segir hún. „Ég hef mikið verið að skoða menntakerfið og hvernig markaðsvæðing hefur haft áhrif á það. Þess vegna var mjög auðveld nálgun fyrir mig að skoða ástina með þessum augum.“

Ástin selur

Ástarrannsóknir eru tiltölulega nýjar af nálinni í fræðilegu samhengi en ástin hefur í gegnum aldirnar verið einhvers staðar í eternum og aðeins á færi skáldanna. Er Berglind Rós ekkert hrædd um að skemma sjarmann með því að rýna of djúpt í hana?

„Þetta er náttúrulega algjörlega glæpsamlegt ef út í það er farið,“ segir hún og hlær. „Það er mjög viðeigandi að þessi viðburðaröð eigi sér stað í kirkjunni því ástin hefur lengst af verið nánast á sama stað og trúin. Þetta er eitthvað ósnertanlegt sem við náum ekki fyllilega utan um, frekar en heilagan anda eða guð.“

Berglind Rós segir að markaðurinn hafi nýtt sér þessa trú okkar á ástinni til þess að fá okkur til að kaupa meira því ástin selji alveg gríðarlega.

„Fyrirmyndir okkar í ástinni eiga oft auðvelt með að bjóða viðkomandi í dýrar ferðir til útlanda og skapa rómantíska stemningu sem kostar sitt,“ segir hún. „Ef við skoðum ástina í stéttasamhengi getur hún verið ansi grimm.“

Markmiðið segir Berglind þó ekki að eyðileggja hugmyndina um ástina heldur aðeins að trufla hana.

„Ég er með ansi félagsfræðilega greiningu og félagsfræðin truflar alltaf þegar við áttum okkur á því að eitthvað sem við höldum að sé einstakt frekar almennt,“ segir hún. „Tilfinningar eru ekki síður félagslegar en einstaklingsbundnar. Ástin er ótrúlegt fyrirbæri og sterk orka í okkar lífi og einmitt þess vegna þurfum við að vera fær um að skoða hana með kerfisbundnum hætti án þess þó að telja okkur trú um að við munum nokkurn tímann skilja hana til hlítar.“ (Arnar Tómas Valgeirsson, Fréttablaðið, 23. mars 2022)

Undir yfirborðið – Ástarrannsóknir

Þátturinn Undir yfirborðið í umsjón Ásdísar Olsen var tileinkaður ástarrrannsóknum þann 5. desember 2022. Rætt var við Berglindi Rós Magnúsdóttur.

Ef þú giftist

Umsjónamaður: Brynhildur Björnsdóttir. Lögformlegur samningur um ást og uppvask Hjónabandið er allt í senn, samfélagslegur hornsteinn, stofnun ástarinnar og lögformlegur samningur um

Framakonur í annars konar leit að ást

Berglind Rós Magnúsdóttir hefur rannsakað marga ólíka anga ástarinnar. Í nýjustu rannsókn sinni talaði hún við fimmtán fráskildar framakonur um leit þeirra

Leave a Comment

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *