Facebook
Twitter
LinkedIn

Aðrir pistlar

Í nýjustu bók sinni „The end of love“ spyr menningarfélagsfræðingurinn Eva Illouz þeirrar mikilvægu spurningar hvernig þetta nútímaástand sem einkennist bæði af markaðshugsun á öllum vettvangi, og mögulegum sítengingum að öllum heiminum í gegnum tæknivædd samskipti, hafi breytt tilfinningum okkar og rómantískum tengslum. „Það eru fleiri fiskar í sjónum“ eru ekki aðeins upplyftandi huggunarorð lengur heldur teljanlegur raunveruleiki í formi lítilla síla á Tinder sem hægt er að skoða og verðleggja, en þar sem sjálfið þitt er þó undir sams konar mælistiku. Þú ert bæði gerandi og þolandi í senn, eitt af sílunum, sem stundum verður að stóra gullfiskinum, að minnsta kosti um stundarsakir. Sumir hafa einmitt komið sér upp eins og litlu fiskabúri, halda nógu mörgum möguleikum opnum því líkurnar á að það samband sem þú ert í núna muni gefa sig eru meiri en að það haldi ef marka má nýlegar tölur. 

Rómantísk ást varð einkennismerki fyrir frelsi og sjálfræði tilfinninga. Hver og einn á rétt á að velja sér maka samkvæmt eigin tilfinningum. Ekki skal þvinga neinn inn í ástarsamband. Þessi hugmyndafræði gagnaðist konum í baráttu sinni fyrir að eiga eigin líkama, hvort sem er í hjónabandi, í vinnunni og við óvelkomna þungun. Það er í raun mjög stutt síðan konur fengu rétt yfir líkama sínum í hjónabandi. Þessi bylting skilaði því miklum ávinningi.

Anthony Giddens var einna fyrstur félagsfræðinga til að benda á hvernig þetta nýja tilfinningakerfi nútímasamfélagsins kallar fram stöðug átök í hverjum einstaklingi milli þess að vera innilegur og náinn, gefa af sér og hins vegar þess að vera sjálfstæður og passa upp á eigin sjálfsvirðingu og sjálfsmynd og vera því stöðugt um leið og dvalið er í nándinni að velta fyrir sér hvort rétt væri að fjarlægja sig úr aðstæðunum.

Fráskilda og sambandsfría aðalsögupersónan í Ástarmeistaranum segir:  ÉG er hrædd við þig. ÉG er hrædd um að laðast um of að þér og tapa þar með sjálfstæði mínu á nýjan leik. … Hún sagðist vera búin að átta sig á því að helst af öllu í heimi vildi hún verða sjálfstæð kona. Að hún óttaðist að hún myndi aldrei verða nógu sjálfstæð í sambúð með manni, ekki að sambúðarformið væri endilega svo gallað heldur væri hún líklega of meðvirk.

Þetta ástand sem hér er lýst kallar fram óöryggi og viðvarandi kvíðatilfinningu um að velja örugglega að velja rétt, fyrir sjálfan sig.

Hugmyndin um ástina hefur ekki síst byggst á tvennu; að upplifa sérstöðu og fullvissu um eigin tilfinningar og varanleika þeirra. Sérstaðan fýkur í stöðugum samanburði, fullvissan er mjög óljós því búið er að afnema leikreglur um hvað sé viðeigandi hegðun og sannar tilfinningar og varanleikinn (ást að eilífu) er eitthvað sem fólk á mjög erfitt með að treysta á. Eva spyr sig því hvort ástin í þessari merkingu sé deyjandi fyrirbæri og hvers konar tengsl hafi þá komið í staðinn? Tengsl í sjálfsmyndarveruleika þar sem markmið lífsins er að safna sér alls kyns ánægjulegri lífsreynslu með tiltekinni neyslu og samskiptum. Og þau allra best lukkuðu þurfa helst að birtast jafnóðum á tæknivædda alheimsskjánum. Skuldbindingar af ýmsu tagi geta truflað þessa auðsöfnun. Tími er jú peningar og við lifum aðeins einu sinni.

Við setjum upp myndir af okkar besta mögulega sjálfi og ef við erum með þokkalega stöðu á markaði náum við að velja. Þá hefjast  rafræn samskipti sem eru að sumu leyti eins og atvinnuviðtal þar sem reynt er að fiska með sem snörpustum hætti hvort viðkomandi sé þess virði því tíminn er jú naumur og svo margir fiskar í sjónum. Þú reynir að lesa út veikleika/styrkleika og hvers konar tengsl viðkomandi vill. Skammstafanir eru jafnvel notaðar til að stytta skrifstundir, DTF – down to fuck? – og þá veistu strax hvort hinn er á sömu buxunum (eða ekki í buxunum). Að senda mynd af líkamspörtum er einnig leið sem sumir fara.

Til verða alls kyns sambönd, óendanlega mörg afbrigði af samböndum. Eitt af þeim sem Eva Illouz kallar situation-ship eða tímaband sem er þegar báðir aðilar vita innst inni, yfirleitt án þess að beinlínis sé um það rætt, að þetta er samband byggt á afmörkuðum tíma vegna tiltekins verkefnis eða staðsetningar. Aldrei er talað um framtíð og engar opinberar parabirtingarmyndir leyfðar á samskiptamiðlum, skuldbindingar ná einungis til dagsins í dag. Þær eru fyrst og fremst hugsaðar til að fullnægja tilteknum þörfum í afmarkaðan tíma. Hæfileikinn til að fara hæfilega djúpt inn í slík sambönd og halda sjálfsvirðingu á meðan og á eftir er dýrmætur. Slík sambönd eru að verða æ algengari og ekki lengur krúttlegar æfingabúðir unglingaástar, eins og sumarástir þeirra í Grease, heldur raunveruleiki miðaldra fólks.

Það er líka orðið æ algengara sem Eva Illouz kallar ghosting, að hverfa eins og draugur út úr samböndum, hætta fyrirvaralaust að svara skilaboðum, loka á viðkomandi á öllum samskiptamiðlum og án þess að gefa skýringar. Íslensk þýðing gæti verið að drauga einhvern. Ef marka má gögn frá einstaklingum í rannsókn Evu Illouz þá skilur þetta eftir sig mjög skrýtna tilfinningu sem getur haft, ekki síst þegar slíkt er upplifað aftur og aftur, mjög dramatísk áhrif á sjálfsmynd og traust. Oft hafa þessi sambönd verið mjög svo innileg og ástrík og engin sýnileg merki um að þau væru að ná endamörkum. Að mæta ekki á deit eða láta sig hverfa í miðju deiti er einnig nokkuð algengt. Hugrekkið til að ræða um tilfinningar sínar eða ljúka sambandi virðist ekki vera til staðar og heldur ekki nauðsynlegt í þeim félagslega veruleika sem við lifum í.  Eva Illouz bendir á að í þessu nýja kerfi samskipta séu engar neikvæðar afleiðingar af þess háttar hegðun en það gæti verið öðruvísi hér í fámenninu á Íslandi. Þetta er eitt af því sem hið íslenska ástarrannsóknarfélag þyrfti að rannsaka.

Óttinn við þetta ástand birtist meðal annars í því að fólk gerir sér áætlanir í samskiptum sem byggjast meira á sjálfsvörn og sjálfsvernd en áður. Ástaryfirlýsing var í grunninn viljayfirlýsing um að treysta einhverjum tilteknum aðila fyrir sínu innsta og kærasta. Að játa einhverjum ást sína inni í þessu kerfi er að opinbera varnarleysi sitt. Við náum æ sjaldnar svo djúpu og gagnkvæmu trausti. Þessi leysing á samskiptareglum, síendurtekin brot á trausti, hafa skapað aðstæður fyrir því sem Eva Illouz kallar frádræg eða neikvætt hlaðin tengsl. Það er alltaf von á högginu og þú gerir alltaf óbeint ráð fyrir því. Eins er það mannleg breytni og hluti af varnarháttum að vera þá að minnsta kosti fyrri til að höggva. Þegar gera má ráð fyrir höggi getur verið stutt í ósjálfráð viðbrögð.

Ein birtingarmyndin af varnarháttum er að hafa marga í spilinu, til að verja sig því að falla of djúpt inn í eitt einstakt samband. Eins uppfyllir það mun frekar möntruna um að safna sér einstökum og margs konar reynslu á sviði tilfinninga og kynlífs.

Eva Illouz vill þó meina að við höfum flatt út möguleikann á djúpum tengslum því þegar traustið og sérstaðan eru fokin þá er ást í þessum eiginlega skilningi líka fokin út í veður og vind. Við verðum öll eins og lítil síli í alheimshafinu. Eins höfum við kyrfilega aðgreint kynlíf og ást sem gerir þetta að mörgu leyti enn þá óljósara ekki síst skilgreiningar á samböndum. Er þetta ástarsamband eða kynlífssamband?  Með öllum þessum aragrúa af mögulegum sambandsskilgreiningum er æ sjaldgæfara að fólk sé á nákvæmlega sömu blaðsíðu með skilgreininguna.

Afleiðingin af þessu öllu er einföld. Það eru mun fleiri skilnaðir, sambönd vara í styttri tíma ef þau á annað borð verða formlega til, mun fleiri búa einir, einmanaleiki er orðin að heimsfaraldri, fæðingartíðni fer stöðugt lækkandi því það þarf traust og skuldbindingar til að geta eignast börn í kerfi sem hefur ekki umhyggjuhagkerfi, það er, lítilsvirðir þá staðreynd að við erum háð öðrum stóran hluta af lífi okkar.

En eitt gleymist í þessari leysingu og þessu frelsi til alls kyns sambandssamninga. Við semjum okkur ekki frá tilfinningum. Við erum mennsk og þurfum því að burðast með tilfinningar. Að vera meira og minna í einhvers konar viðskiptasamböndum þar sem við aftengjum okkur tilfinningalega eða vörpum einungis fram tilteknum tilfinningum út í kosmósið skapar skort í tilfinningalífinu. Við leyfum okkur helst aldrei að vera fyllilega berskjölduð tilfinningalega, gagnvart neinu eða neinum. Við hættum að búast við stöðugleika og skuldbindingu. Það er einnig þekkt að margendurtekin höfnun hefur þær afleiðingar að fólk lokar sig af tilfinningalega og jafnvel þegar það finnur traust samband þá leyfir það sér ekki að flæða opið inn í það. 

Hér hef ég rætt um arkitektúr ástarvalsins; hvaða ranghala, hringstiga, afkima og biðstofur þú þarft að ganga í gegnum til að finna sálufélagann, sem er þó samkvæmt nýjustu tölfræði í verulegri útrýmingarhættu, ásamt ástinni. Við erum á einhvers konar umbreytingarstigi með tilfinningakerfi heimsins, byltingin er rétt að byrja og við vitum ekki nákvæmlega hvert þetta leiðir. Það verður spennandi að fylgjast með. Ástarkveðjur!

Pistilinn birtist upphaflega á ruv.is

Undir yfirborðið – Ástarrannsóknir

Þátturinn Undir yfirborðið í umsjón Ásdísar Olsen var tileinkaður ástarrrannsóknum þann 5. desember 2022. Rætt var við Berglindi Rós Magnúsdóttur.

Rýnt í ástina í Hall­gríms­kirkju

Ný há­degis­við­burða­röð Hins ís­lenska ástar­rann­sóknar­fé­lags hefst í Hall­gríms­kirkju í dag þar sem ástin verður skoðuð frá ýmsum sjónar­hornum. Ástin verður í brennidepli

Ef þú giftist

Umsjónamaður: Brynhildur Björnsdóttir. Lögformlegur samningur um ást og uppvask Hjónabandið er allt í senn, samfélagslegur hornsteinn, stofnun ástarinnar og lögformlegur samningur um

Leave a Comment

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *