Berglind Rós Magnúsdóttir segir að fólk í góðu ástarsambandi eyði talsverðum tíma í að ala hvort annað upp og gefa af sér til hins án þess að ganga of nærri sér. Hún segir ástarbyltinguna rétt að byrja og að Covid-19, eða kófið eins og hún kallar ástandið, hafi fleytt umhyggju-hagkerfinu upp á yfirborðið.
Berglind Rós er dósent í uppeldis- og menntunarfræðum við Háskóla Íslands og formaður Hins íslenzka ástarrannsóknafélags. Hún hefur að undanförnu fjallað um hvernig umhyggjuhagkerfið hafi risið upp í kófinu og fleytt okkur í gegnum stærstu skaflana.
Við erum fyrst og fremst tengslaverur
Er einhver þörf á því sem þú kallar umhyggjuhagkerfi?
„Mannskepnan (Homo sapiens) hefur á seinni árum oft verið skilgreind sem Homo economicus, þar sem við höfum mótað samfélög sem gera ráð fyrir að við stjórnumst fyrst og fremst af efnahagslegum hvötum. Mantran hefur verið að við sem manneskjur eigum einfaldlega að vera sjálfstæðar og óháðar; og nota hverja stund í að gera sem mest virði úr sjálfum okkur. Í þessum hamagangi gleymist að þetta er óraunhæft markmið nema með dyggri aðstoð samfélagskerfa og einstaklinga í nærumhverfi okkar því í raun eru allar manneskjur háðar umhyggju og tengslum í gegnum allt lífið, og með afgerandi hætti í upphafi og lok heimsferðar sinnar. Þau okkar sem eiga ekki ríkuleg tilfinningatengsl og samskipti upplifa helst einmanakennd og óhamingju í lífinu. Því má segja að við séum kannski fyrst og fremst Homo interdependicus, eða tengslaverur. Það hefur verið annar heimsfaraldur í gangi sem heitir einmanakennd og því markaðs- og einstaklingsvæddari sem samfélögin verða, þeim mun meiri einverur ganga þar um stræti og torg. Að vera efnahagslega ríkur er hjóm eitt í samanburðinum við þann sem er ríkur af tengslum, ástarkrafti fyrir sjálfan sig og aðra og býr í samfélagi sem tryggir lágmarks umhyggju fyrir alla þegna sína, m.a. í gegnum öflug velferðarkerfi, félagsnet og ríkulegt menningarlíf. Þetta eru grundvallargildi sem ættu að leiða alla uppbyggingu á kerfum okkar og uppeldi til næstu kynslóðar.“
Mikið af ósýnilegri tilfinningavinnu í ástarsamböndum
Hvað getur þú sagt mér um ástarkraftinn?
„Mest af ósýnilegri tilfinningavinnu er unnið í ástarsamböndum og fjölskyldum og er þunginn gjarnan á konum. Dr. Anna Guðrún Jónasdóttir stjórnmálafræðingur setti fram kenninguna um „ástarkraftinn“ fyrir um 30 árum. Í doktorsritgerð sinni velti hún þeirri knýjandi spurningu fyrir sér af hverju konur væru undirskipaðar körlum þrátt fyrir jafnt aðgengi og jafnan rétt að valdavettvöngum samfélagsins. Með kerfisbundinni greiningu á gagnkynhneigðum ástarsambönum þróaði hún kenninguna um ástarkraftinn. Ástarkraftur er sá sköpunarkraftur sem lífgar og endurlífgar þrótt, öryggi og vellíðan og raungerist í ástarveitandi stuðningi og umhyggju bæði í einkalífi og á vinnumarkaði. Konur eru að mati Önnu Guðrúnar megin ástarveitur í ástarsamböndum án þess að njóta ávaxtanna að eðlilegu marki. Makar sem hafa notið góðs af slíkum ástarkrafti átta sig margir ekki á þessari tilfinningavinnu sem þeir hafa notið góðs af fyrr en þeir skilja, konan veikist eða fellur frá. Á þeim 30 árum síðan Anna Guðrún setti fram þessa kenningu hefur þetta auðvitað breyst. Karlar taka nú í meiri mæli þátt í uppeldi og að veita umhyggju inni á heimilinu en að sumu leyti hefur þetta versnað óháð kyni, með aukinni áherslu á Homo economicus, sem ýtir undir aukna einstaklingshyggju og skeytingarleysi gagnvart þeim sem geta ekki stöðugt búið til stórkostlegt virði úr sjálfum sér. Því er gríðarlega mikilvægt að halda áfram með rannsóknir á ástarvinnunni í samfélaginu, hvar hún liggur, hjá hverjum og í hverju hún er fólgin. Í stóra samhenginu þarf svo að spyrja sig hvaða þættir þurfa að vera til staðar til að reka öflugt og réttlátt umhyggjuhagkerfi og hvaða öfl það eru helst sem afvegaleiða réttlætið og ástina í samfélögum.“
Karlar fá hrós ef þeir eru umhyggjusamir
Af hverju heldurðu að samfélagið ætlist til meiri tilfinninga- og umhyggjuvinnu af hendi kvenna en karla?
„Tilfinningavinna sem konur sinna í meiri mæli er oft skilgreind sem virkni sem komi af sjálfu sér en um leið er hunsuð öll sú þjálfun, þekking og mikla vinna sem í henni felst. Þjálfunin hefur oftar en ekki átt sér stað frá blautu barnsbeini í gegnum umhyggjuleiki, skyldur varðandi barnapössun og stöðug óbein skilaboð um að laga sig að þörfum annarra. Konum er sérstaklega refsað í vinnumati ef þær þykja ekki nægilega umhyggjusamar. Karlar fá hins vegar sérstakt hrós ef þeir eru umhyggjusamir. Þessi hæfni lítur út fyrir að vera ósjálfráð en eitt af því sem vísindin hafa kennt okkur er að oft er erfitt að greina milli áunninna og líkamlegra þátta því reynslan mótar hugsun og svo öfugt. Fólk er að upplagi misjafnlega umhyggjusamt og það er því eðlilegt að sýna mismikla umhyggju og á mismunandi hátt óháð kyni. Þetta er bara eins og með gott tóneyra. Fólk þarf þjálfun til að ná tiltekinni færni til að hún verði órjúfanlegur hluti af eigin veruhætti, þ.e. verði eins og ósjálfráð taugaviðbrögð. Sumir þurfa litla þjálfun, aðrir mikla, til að ná tökum á viðfangsefnum en svo er það alltaf fámennur hópur fólks sem nær aldrei að verða tónvisst eða umhyggjusamt hversu mikið sem það þjálfar sig. Þannig mörkumst við ávallt einnig af líkamlegum þáttum. Vísindin hafa sýnt fram á að þessir þættir eru að mjög litlu leyti bundnir kyni heldur er breiddin innan sama kyns mun meiri en milli kynja. Það á einnig við um umhyggju. Í raun hagnast þau sem hafa ræktað með sér þessa hæfni, og búa að tengslaneti og aðlögunarhæfni sinni í síbreytilegu markaðssamfélagi. Hins vegar eiga þau á hættu að ganga kyrfilega á ástarkrafta sína, sérstaklega fólk sem er í ójafnaðarsamböndum, þar sem lítið er gefið á móti. Þeim sem vinna uppeldis-, heilbrigðis- og umönnunarstörf í launuðu vinnunni sinni er sérstaklega hætt við að ganga ótæpilega á ástarforðann – því þau veita af honum allan daginn og þurfa svo oft að halda áfram þegar heim er komið. Eins og Ólafur Páll Jónsson, kollegi og vinur minn, segir (en hann er gott dæmi um afar umhyggjusaman karlmann) þurfum við einfaldlega að hlaða ástarrafhlöðurnar okkar. Við hlöðum orkubatteríin með því að hvíla okkur, en ástarhlöðurnar hlöðum við með því að njóta umhyggju og ástar.“
Með fjölda kvenna í bakvarðasveit sinni
Hver hefur verið í bakvarðasveit þinni á síðustu vikum og mánuðum?
„Eins og margir aðrir upplifði ég margt jákvætt við að það slaknaði á efnahagskerfinu. Þá reis umhyggjuhagkerfið upp úr ósýnileika sínum. Þar sem ég er ekki lengur með lítil börn gaf kófið mér aukið næði til að lesa mig dýpra inn í ástarrannsóknirnar, allar bækurnar sem hafa beðið í stöflum eftir því að vera lesnar. Í þeim áskorunum sem ég var að takast á við í kófinu er skemmst frá því að segja að þar standa fimm vinkonur öðrum framar, en það eru þær Hanna Ólafsdóttir, Charlotte Wolff, Ásta Óskarsdóttir, Auður Jónsdóttir og Hjördís Halldórsdóttir. Ég vil nota tækifærið og þakka þeim fyrir af öllu hjarta. Eins hafði ég fleiri tækifæri til að vera með dætrum mínum og Sylvíu Ragnheiði, 7 mánaða dótturdóttur minni.“
Hvernig hefur tíminn þroskað þig sem persónu?
„Ég ólst upp hjá ömmu minni og afa í afar fámennu og snjóþungu sveitasamfélagi norður í Fljótum í Skagafirði þar sem hjól efnahagslífsins voru smærri og sjálfbærari í sniðum en í þeim samfélögum sem ég hef dvalið eftir það. Svo tók framabrautin beinharða stefnu eins og hjá flestum jafnöldrum mínum sem luku menntaskóla ásamt því að eignast börn. Þá reyndi mest á bakland mitt, aðallega konur í nærumhverfi mínu sem gáfu mér og fjölskyldunni af tíma sínum. Það er í raun stutt síðan ég fór að upplifa gamalkunna kyrrð til þess að hugsa hérna í akademísku umhverfi því framan af var þetta svo mikið kapphlaup. Kófið færði mig svo aftur nær upprunanum hvað varðar sjálfbæra hugsun og rólegheit. Ég hef alltaf haft þá stefnu að eyða sumrinu á Íslandi, það er einstakt, en núna sé ég kyrrláta sveitastemningu á norðurhjaranum í hillingum.“
Rétt hlutfall milli sköpunar- kraftsins og kyrrðarinnar
Í hvernig heimi langar þig að búa?
„Mig langar að búa í samfélagi sem einkennist af réttu hlutfalli milli sköpunarkraftsins og kyrrðarinnar, þar sem hugmyndir flæða milli aðila sem koma úr ólíkum áttum. Hugmyndir flæða ekki milli ólíkra aðila nema við séum laus við fordóma gagnvart tilteknum hópum og besta leiðin til þess er að tryggja stétta- og menningarblöndun í skólasamfélögum. Að það verði ekki búsetusvæði eða skólar sem markist af framandleika og sleggjudómum í garð þeirra sem þar búa. Mig langar að búa í samfélagi sem tryggir að allir upplifi traust og hafi öðlast færni til að taka þátt í lýðræðinu með virkum hætti. Hafi rödd og hafi tíma frá amstri. Í slíku ástandi býr sköpunarkrafturinn. Til að einstaklingar geti gefið af sér til lengri tíma þurfa grunnþarfir að vera uppfylltar, einnig tilfinningalegar grunnþarfir, ekki bara þær efnahagslegu og félagslegu. Ójafnrétti getur birst í mismunandi aðgengi að tilfinningalegum bjargráðum til að bregðast við óöryggi og miklu álagi. Sumir koma með takmarkaðan ástarkraft út úr uppeldisaðstæðum sínum. Tilfinningalegt bolmagn markast af uppeldisaðstæðum og tengslum innan fjölskyldu. Sumir hafa ekki alist upp við tilfinningalegt öryggi eða lært hin óskráðu tilfinningalegu viðmið samfélagsins. Þeim er hættara við jaðarsetningu og jafnvel skorti á raunverulegum tilfinningatengslum. Tilfinningatengsl eru samt það mikilvægasta í lífi hverrar manneskju. Þess vegna verðum við sérstaklega að hlúa að þessum þætti í þessu einstaklingshyggjusamfélagi okkar og tryggja þetta í uppeldi og menntun rétt eins og aðra hæfniþætti.“
Umhyggja er yfir og allt um kring
Hvaðan kemur áhugi þinn á ást og umhyggjuhagkerfinu?
„Ég hef lengi velt fyrir mér ójöfnuði í samfélögum. Umhyggja er yfir og allt um kring í störfum sem varða uppeldis- og menntageirann en sú vinna er samt hvergi fyllilega skilgreind, hvorki sem alvöru hæfni né raunveruleg vinna. Maður heyrir enn að kennsla og uppeldi séu bara dútl en ég hef sinnt fjölmörgum störfum á lífsleiðinni og það er ekkert starf sem mér þykir jafn vandasamt og að vera með fjölmennan bekk af sex ára börnum í samfleytt sex klukkustundir. Í akademísku námi mínu fékk ég leiðsögn frá femínískum fræðidrottningum á borð við Guðnýju Guðbjörnsdóttur, Þorgerði Einarsdóttur, Sigríði Þorgeirsdóttur og Rannveigu Traustadóttur sem hrærðu upp í heimssýn minni sem fékk svo sína eigin vængi í doktorsnámi hjá Diane Reay, prófessor emerita við Cambridge-háskóla í Bretlandi. Síðan þá hefur þorsti minn á þessu sviði verið óslökkvandi.“
Hvað hefur þér þótt skemmtilegast að gera í lífinu?
„Það fer eftir tímabilum. Undanfarið veit ég fátt skemmtilegra en að lesa um kenningar, hugmyndir og hugtök sem hjálpa manni að skilja gangverk nútímasamfélags og þróa nýjar hugmyndir.“
Markaðshagkerfið stöðugt að segja að þig vanti eitthvað
En erfiðast?
„Að kunna sér hóf og láta ekkert, hvorki vinnu, rómantíska ást, mæðrun, tómstundir né kröfur nútímasamfélagsins um hástemmdan lífsstíl, ræna mann vellíðan og jafnvægi. Lifa í góðum ryþma og passa upp á sig, brenna ekki út. En það er auðveldara að segja þetta en að fara eftir þessu, ekki síst þegar áreitið kemur úr mörgum áttum. Eins og margir aðrir Íslendingar hef ég mótast af veðrabrigðum og óstöðugleikanum sem fylgir þeim og þegar veður er gott er það nánast eins og náttúrulegt viðbragð að keyra sig út. Þetta gæti nefnilega verið eini sólardagurinn í bráð!“
Áttu góð ráð fyrir einstaklinga sem vilja auka ástarkraftinn sinn?
„Þetta er spurning sem er reyndar efni í heila fræðigrein. Fyrsta skilyrðið er auðvitað að kunna að setja mörk fyrir sjálfan sig, þekkja hvað maður þolir og virða það. Kunna að verja sig fyrir áreiti markaðssamfélagsins sem er stöðugt að segja þér að þig skorti eitthvað. Það er að rækta tengslin sín, viðhalda þeim og byggja ný í sátt við aðrar skyldur. Fólk í góðu ástarsambandi eyðir talsverðum tíma í að ala hvort annað upp og gefa af sér til hins án þess að ganga of nærri sér. Þetta er jafnvægislist sem þarf að vera í stöðugu flæði og endurliti. Svo er það auðvitað að rækta lýðræðisvitundina og pólitíska sjálfið og leggja sitt af mörkum í að móta samfélag sem styður okkur í því að verða sjálfbærari og heilsteyptari manneskjur. Byltingin er rétt að byrja!“