Við lifum á fordæmalausum tímum veirufaraldurs og þá er ýmislegt sett fram á samfélagsmiðlum, meðal annars jákvæðar áskoranir til að stytta stundir, peppa, gefa von, slá á neikvæðni, drepa tímann. Ein af þessum áskorunum felst í að efla kvennasamstöðu með því að setja mynd af sjálfri sér og tagga 50 aðrar konur. Statusinn er eftirfarandi:
Of oft finnst konum auðveldara að gagnrýna hvor aðra í stað þess að byggja hvor aðra upp. Með alla neikvæðni þarna úti, gerum eitthvað jákvætt! Hlaða upp 1 mynd af sjálfri þér … Bara þú!!!! Merktu svo margar fallegar konur til að gera það sama. (FB leyfir bara 50) Við munum byggja okkur sjálf, í stað þess að rífa okkur í sundur.
Mér fannst þetta fagurt og skemmtilegt, þótt það pirraði mig eilítið að gjörningurinn væri hugsaður til að stemma stigu við neikvæðni kvenna í garð annarra kvenna, því í raun er ég þessu ósammála. Helstu bakhjarlar í mínu lífi hafa verið og eru konur. Fleiri höfðu augljóslega velt þessu fyrir sér. Hanna Björg Vilhjálmsdóttir varpaði fram gagnrýni á Facebook og tekur kvenréttindabaráttuna sem dæmi um breiða samstöðu kvenna. Þar reyndi aldeilis á samstöðu, biðlund, þolinmæði og þrautseigju. Hún bendir á að sumar hafi jafnvel fórnað lífi sínu fyrir aukin réttindi kvenna.
Þegar ég hugsa til baka hef ég verið svo heppin að tengjast sterkum böndum fjölda „mæðra“ og vinkvenna sem hafa stutt mig og mína með óeigingjarnri umhyggju- og tilfinningavinnu. Samstaða og umhyggja getur einmitt byggst á því að setja egóið sitt aðeins til hliðar og gefa af sér til annarra án þess að það verði nokkurn tímann möguleiki að setja það á ferilskrána sína eða að það sé nokkur trygging fyrir því að sá sem þiggur sýni nokkurn tíma þakklæti. Ég verð að játa að ég hef sjálf ekkert alltaf verið þess umkomin að sýna nægilegt þakklæti. Þær konur sem ég er með í huga hafa ekki einungis verið svona gefandi gagnvart mér heldur fjölda annarra, þær eru ósparar á ástarkraft sinn til annarra, stundum jafnvel einum of – heilsu þeirra vegna. Á tímum veiruhamfara kemur einmitt svo skýrt í ljós að þessar konur mynda skuggahagkerfi sem heldur uppi samfélögum, eins og t.d. bakvarðasveitirnar á tímum COVID-19 sem passa að eldra fólk heyri örugglega í einhverjum. Þetta kvennaátak á Facebook var gott að því leyti að það fékk mig til að hugsa og mig langar að deila með ykkur þönkum mínum, þ.e. með því að skoða nánar hugtökin ástarkraft, arðrán og umhyggjuhagkerfi.
Ástarkraftur og arðrán
Anna Guðrún Jónasdóttir stjórnmálafræðingur þróaði hugtakið ástarkraft (love power) og vísar þar í eins konar tilfinningaauðmagn sem við búum yfir. Eins og með önnur eftirsóknarverð gæði hefur fólk mismikið af þeim og getur ástarkrafturinn orðið arðráni að bráð. Sá sem hefur meiri völd er í aðstöðu til að kúga hinn sem hallari fæti stendur. Í kapítalísku samfélagi er efnahagslegt varnarleysi ávísun á að hægt sé að þvinga fólk til að vinna fyrir ósanngjarnt fjárframlag sem hinn efnameiri getur svo nýtt sér í eigin þágu. Anna Guðrún heimfærir þetta á ójöfnuð í ástarsamböndum og bendir á að í kynjuðu samfélagi séu konur oftar í undirskipaðri stöðu efnahagslega og táknrænt. Í gegnum uppeldi sitt er þeim frekar kennt en drengjum að laga sig að öðrum og þjóna, gleðja og veita. Þær eru því í meiri hættu á að verða arðrændar ástarkrafti sínum. Öll sambönd eru á einhvern hátt valdabarátta, líka góð sambönd, sem þrátt fyrir valdabaráttu og einhvern ójöfnuð, gefa báðum aðilum einhvers konar ástarkraft; fullnægju, vellíðan og mögnun (ekki örmögnun). Konur sem búa með ástararðræningjum hafa oft ekki mikinn ástarkraft aflögu, hvorki fyrir sjálfar sig né aðra. Þess vegna má segja að áðurnefnda kvennaátakið á Facebook beini athygli kvenna að því að gleyma ekki styrknum í kvennasamstöðunni sem getur m.a. hjálpað konum að komast út úr slíkum samböndum.
Þjálfun fyrir umhyggjuvinnu
Rannsóknir sýna að konur halda uppi nánum tilfinninga- og tengslanetum í ríkara mæli en karlar. Þótt þeir hafi orðið virkari þátttakendur í uppeldi barna sinna á síðustu árum er ábyrgð mæðra enn meiri en feðra. Í íhaldssömustu samböndunum halda þær ekki einungis utan um tengslin við eigin ættingja og vini heldur einnig tengdaforeldra og fjölskyldu „fyrir“ eiginmanninn, vinatengsl barnanna, og tengsl við kennara og aðra sérfræðinga sem koma að uppeldinu. Karlar sem hafa notið góðs af slíkum ástarkrafti átta sig margir ekki á þessari tilfinningavinnu sem þeir hafa notið góðs af fyrr en þeir skilja eða konan fellur frá.
Samfélagið ætlast til meiri tilfinninga- og umhyggjuvinnu af hendi kvenna en karla, óháð stöðu. Það gerir það að verkum að þær eru með sterkara nándarnet, eiga í meiri samskiptum, og eru síður einar eða einangraðar. Á móti kemur að þær eru líklegri til að ganga svo kyrfilega á ástarkrafta sína að þær eiga lítið eftir handa sjálfum sér. Þetta á sérstaklega við um konur sem eru einnig að nota ástarkraftinn í launuðu vinnunni sinni og sinna kennslu-, uppeldis-, heilbrigðis- og umönnunarstörfum. Þrátt fyrir að karlar sinni einnig þessum störfum þá er það sjaldgæfara og þeir fá þá gjarnan sérstaka athygli og aðdáun fyrir, á meðan þetta er afgreitt sem eðlislægur eiginleiki hjá konum. Konur sem leggja áherslu á eigin frama eru oft álitnar sjálfselskar en slíkt væri seint sagt um framagjarna karla. Konur fá snemma þjálfun fyrir umhyggjuvinnuna, til dæmis í gegnum leiki á barnsaldri, barnapössun frá unga aldri eða umhyggjustörf á vinnumarkaði strax á unglingsaldri. Því er ekki að undra að náms- og starfsval kynjanna taki mið af þessum kynjaða veruleika þar sem konur virðast hafa meira námsval og velja sig bæði inn í kvenlæga og karllæga geira en í huga ungra karla virðist umhyggju- og uppeldisgeirinn ekki vera fullgildur möguleiki. Afleiðingin er að konur sinna þessari vinnu í ríkari mæli bæði í einkalífinu og á opinberum vettvangi.
Umhyggjuhagkerfið
Hlutverk kvenna verður því að halda uppi umhyggjuhagkerfinu. Við sjáum þetta á fyrirlestrum í háskólanum um málefni eins og fátækt, umhverfisvá, misrétti, kynjajafnrétti, fötlun og flótta- og innflytjendamál. Þá er salurinn fullur af konum sem hafa tekið málefnið á sínar herðar. En ef fyrirlestrar eru um efnahagsmál eða atvinnumál með lykilorðin hagvöxt og samkeppni, þá eru salirnir dekkaðir körlum; alphakörlum – sem nú eru í mestri lífshættu eins og Kári Stefánsson benti á í viðtali á RÚV á dögunum. Þeir þurfa nú mest á umhyggjuhagkerfinu að halda.
Þeir sem hafa valdið hafa því lengst af vanist því að njóta allrar þessarar umhyggju- og tilfinningavinnu og nýtt efnahagsleg og stjórnmálaleg yfirráð sín í heiminum til að komast hjá því að skilgreina hana sem verðmæti. Ýmsir hafa bent á að það sé samt hið ósýnilega umhyggjuhagkerfi sem haldi samfélögum uppi. Við sjáum þetta vel á þessum tímum þar sem það lítur út fyrir að þær þjóðir sem eru ríkar af tengslum, nánd, ást og umhyggju, samkennd og virðingu, sterkum velferðarkerfum fyrir almenning, og ekki síst jöfnum rétti kvenna og karla, verði þær sem munu koma hvað best út úr þessum faraldri – án þess að gefa afslátt af lýðræðislegum stjórnarháttum. Við þurfum hins vegar að jafna þessa vinnu milli fjölskyldumeðlima, kynja og stétta og meta hana að verðleikum.
Við þurfum að huga sérstaklega að þeim sem eru að verða uppiskroppa með ástarkraftinn sinn; vegna fordæmalauss álags á umhyggjuhagkerfið um skemmri eða lengri tíma. Peppið á tímum COVID-19 ætti e.t.v. að vera í formi skilaboða um að passa upp á ástarkraftinn sinn, verandi að reyna að sinna öllu og öllum inn á heimilinu. Þetta á sérstaklega við um þau sem hafa ekki upplifað að framlag þeirra sé nægilega metið, hvorki heima né á vinnumarkaði. Í einhverjum tilfellum erum við að tala um fólk sem hefur sinnt ósýnilegri umhyggju- og tilfinningavinnu í ríkari mæli en það sjálft getur borið. Konur eru þar í miklum meirihluta en þar eru einnig karlar sem eru enn síður tilbúnir til að tjá sig um það en konur vegna menningarbundinna hugmynda um karlmennskuhlutverkið. Mat okkar á framlagi á þessu sviði er yfirleitt körlum í hag því við höfum gjarnan minni væntingar um tíma, umhyggjuvinnu og ástarkraft frá þeim. Sem dæmi má nefna þá fá karlar sérstaka umbun í kennslu- og starfsmati fyrir að vera umhyggjusamir. Það er einfaldlega gert ráð fyrir því að konur séu það og ef ekki fá þær það óþvegið í umsögnum nemenda og sjúklinga.
Ástarkrafturinn í þínu lífi? Gerum hann sýnilegan
Raunar væri draumaáskorunin mín eitthvað á þessa leið. Árangur, hvort sem það er árangur einstaklings, þorps, eða þjóðar byggir ekki síst á óeigingjarnri umhyggju- og tilfinningavinnu. Vinnu sem oft er ósýnileg öðrum en þeim sem nutu góðs af.
Hver hefur verið í bakvarðarsveitinni þinni? Skelltu inn mynd af þeim og merktu það fólk sem hefur veitt þér hvað mestan ástarkraft í þínu lífi; æsku og uppvexti, þegar þú varst að feta framabrautina og þurftir einhvern til að létta undir með þér, varst að eiga börnin, varst kljást við sjálfa(n) þig eða aðra eða einfaldlega þegar þú þurftir hlustun, hlýju og athygli. Manneskjur sem hafa á óeigingjarnan hátt gert heiminn þinn svo miklu betri. Með alla þessa jákvæðni þarna úti, gerum ástarkraftinn sýnilegan.
Höfundur er prófessor á menntavísindasviði við Háskóla Íslands.