Facebook
Twitter
LinkedIn

Aðrir pistlar

Kvíði, sjálfsmyndarkreppa, ístöðuleysi og streita einkenna hið póstmóderníska ástand, þar sem heimsmyndin hefur riðlast undan þunga hins kapítalíska síðnútíma.  Hefðbundnar stofnanir sem hafa haldið utan um tilfinningalífið, eins og kirkjan, hjónabandið og fjölskyldan, eru að leysast í sundur og markaðurinn hefur fengið lausan tauminn svo kapítalið geti flætt frjálst. Valmöguleikar í lífinu hafa margfaldast og samkeppni er nú frumregla félagslegra samskipta. Þeim er gjarnan fylgt eftir með möntrunni um að hver skuli „hámarka sjálfan sig“ (to reach your full potential). Þessi heimsmynd gefur einstaklingnum ekki einungis kost á, heldur í raun krefur hann um, að slíta sig lausan úr hlekkjum hefða og venja og aftengja sig fyrra samhengi sínu og vera fyrst og fremst skuldbundinn sjálfum sér. Þetta birtist í sífelldri sjálfsskoðun og jafnframt sjálfsávöxtun sem miðar að því efla samkeppnisstöðu á markaðstorgi hins félagslega veruleika. Í dag ætla ég að fjalla um megin fylgifiska þessa nútímaástands í tengslum við rómantíska ást. Einskisvalið.

Á okkar tímum er val grundvallar virkni hjá nútíma manneskjunni til að tengja við umhverfi sitt og svo ekki síst til að móta eigið sjálf – eða réttara sagt hanna eigið sjálf í gegnum meðvitað val. Fólk er skoðað og dæmt út frá því sem það velur, meðvitað eða ómeðvitað. Fólk sem á auðvelt með að skipta um maka, stjórnmálaflokka, vinnu, búsetu – allt til að hámarka betur virði sitt og vera „trúr sjálfum sér“ – það er fólkið sem nær að lifa í takt við þessar áherslur. Allt sem krefst skuldbindinga til langtíma er til trafala. Markaðslögmálið segir að sérhver kjölfesta sé til trafala nema hún beinist að kapítalinu sjálfu, því mestu sé um vert að halda öllum möguleikum opnum og velja ævinlega það „besta“ sem býðst á hverjum tíma. Þessi afstaða getur grafið undan getunni til að þróa djúpstæð tengsl.

Í markaðssamningum hafa tryggingarfyrirtæki verið nýtt til að minnka áhættu, notuð sem þriðji aðili í samningum. Nú eru ný form af samningum að ryðja sér til rúms – samningar án skuldbindinga og viðmiða. Það er sítenging, sveigjanlegur vinnutími, hægt að útvista tilteknum verkefnum til ódýrs vinnuafls, og rjúfa ýmsa skilmála sem byggðu á heilindum milli vinnustaða og fólksins. Þessar breytingar á samningum hafa gert það að verkum að stórfyrirtæki eru mun síður skuldbundin fólkinu sem vinnur fyrir það en áður. Með því að afnema slíkar skuldbindingar er hægt að skapa sveigjanleika fyrir neytendur varðandi verð og þjónustu. Að geta rekið og ráðið að vild. Allt verður nokkurn veginn skuldbindingarlaust. Það sama á við um einkalífið og ástina.

VAL sem er lykilorð kapítalismans hefur nú þróast yfir í að velja aldrei fyllilega neitt, til að hafa vaðið fyrir neðan sig. Að skuldbinda sig aldrei í nein tengsl að fullu, hvort sem þau eru efnahagsleg, pólitísk eða rómantísk. Þetta má kalla einskisval (non-choice).

Þessi iðja, einskisvalið markast af þeirri tilfinningu að þú þurfir að lágmarka áhættu. Forspárgildi er grundvallarstærð í félagstengslum, að hægt sé að reikna út við hverju megi búast af öðrum. Öll tengsl byggja á trausti milli fólks og þekkingu á sjálfum sér og þeim sem við erum í samskiptum við. Hver er ég í þessum aðstæðum? Hvernig bregst ég við öðrum í þessum aðstæðum? Með regluslökun í formgerð og regluverki ástarinnar hefur óreiðan og óvissan aukist. Er þetta hittingur? Eða samband? Eða bara neysla á líkama? Eða neysla á tilteknum tilfinningum? Hvað segir það um mig og mína hámörkun á sjálfinu að leggja lag mitt við jón? Afleiðingin er einskisvalið. Að skuldbinda sig ekki um of.

Nýlegar rannsóknir sýna að ungar framakonur kjósa fremur skyndikynni en stofna til sambanda til að geta einbeitt sér að framanum. Þær hafa jafnframt lært að þær eiga sama rétt á því og karlkynið að leita einungis eftir nautn.

Að stjórnast um of af tilfinningum, verða raunverulega ást-fangi, fangi eigin ástarvíla, er eitthvað sem ber að varast. En á sama tíma er ástin sem fyrirbæri það sem þeim er kennt að trúa á. Að elska að elska. Mótsögn? Já.

Frelsið til að fara inn í sambönd af öllu tagi hefur einnig skapað aukið frelsi til að yfirgefa þau – jafnvel með einum takka. Þekktustu birtingarmyndir einskisvalsis eru date-síður eins og Tinder sem breyta ástarverunni fyrst og fremst í neytanda kynlífs og tilfinninga. Tengsl hlutgerast einnig á fasbók og mess-angri og hinar auðveldu aftengingar á tengslum með einum takka – afvinun og blokkeringar – gera þetta einskisval svo miklu auðveldara. Að velja að afvelja.

Þetta er jafnvel að verða krúttleg rútína hjá sumum.

Samt sem áður erum við öll að leita að „raunverulegri nánd“. Einhverjum sem er fær um að elska okkur án þess kannski að við spyrjum okkur sjálf hvort við erum fær um að elska.

Ástin á tímum kófsins hefur e.t.v. gefið okkur smá umhugsunarfrest, smá tíma til að kafa og staldra við í allri þessari meintu upplifunarhámörkun. Við komumst ekki lengur í snotrar ástarferðir til Parísar, Rómar eða New York. Skyndiástir þarf nú samkvæmt fyrirmælum frá ríkinu að stunda með grímu og hanska og í tveggja metra fjarlægð. Hinn frjálsi ástarmarkaður er tekinn frá okkur. Kóvíddir í síðnútíma hafa tekið við af þeim póstmóderníska nútíma sem ég lýsti hér í upphafi. Tíminn staldrar við í stað þess að þeysast áfram, jafnvel stendur í stað; Öllum hittingum og viðburðum hefur verið slegið á frest. Okkur hefur verið still upp við vegg og við neyðumst til að hugsa. Tími gefst til að huga að því hvaða tengsl eru sjálfbær? Hverjum við erum skuldbundin? Og hversu háð við vorum allri neyslunni, ferðalögunum, börunum, þessu sem við héldum að væri ást. Þolum við okkur sjálf og einveruna? Ástin sem fyrirbæri hefur lengst af verið tengd staðfestu, skuldbindingum, einlægni, tærleika, heitum tilfinningum.  Erum við kannski aftur að færast þangað? Eva Illouz, einn helsti ástarfélagsfræðingur okkar tíma, segir að kófið hafi mögulega fært okkur nándina aftur og minnkað óvissuna í tilfinningatengslum okkar. Dæmi hver fyrir sig. Eftir sitjum við þó með þá staðreynd að við getum aðeins elskað þann sem við erum frjáls til að yfirgefa.

Pistillinn birtist upphaflega á ruv.is

Undir yfirborðið – Ástarrannsóknir

Þátturinn Undir yfirborðið í umsjón Ásdísar Olsen var tileinkaður ástarrrannsóknum þann 5. desember 2022. Rætt var við Berglindi Rós Magnúsdóttur.

Rýnt í ástina í Hall­gríms­kirkju

Ný há­degis­við­burða­röð Hins ís­lenska ástar­rann­sóknar­fé­lags hefst í Hall­gríms­kirkju í dag þar sem ástin verður skoðuð frá ýmsum sjónar­hornum. Ástin verður í brennidepli

Ef þú giftist

Umsjónamaður: Brynhildur Björnsdóttir. Lögformlegur samningur um ást og uppvask Hjónabandið er allt í senn, samfélagslegur hornsteinn, stofnun ástarinnar og lögformlegur samningur um

Leave a Comment

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *